Malarrif
Gestastofa þjóðgarðsins er við Malarrif. Þar er einnig frábær áningastaður fyrir alla fjölskylduna, leiktæki og nálægð við ströndina.
Í gestastofunni er sýning þar sem þema er vermaðurinn og náttúran. Leitast er við að sýna hvernig vermenn nýttu náttúruna til að sjá sér farboða. Höfðað er til allra skilningavita og eru gestir hvattir til að smakka, lykta og reyna. Sýningin er einnig fyrir sjónskerta.
Gamalt salthús er við ströndina þar sem nemendur Lýsuhólsskóla í Snæfellsbæ settu upp sýningu árið 2016 og viðhalda árlega. Á sýningunni má finna hin ýmsu verk eftir nemendur, þar á meðal teikningar, skúlptúra og steina sem breytt hefur verið í furðurverur. Þá mega gestir taka þátt í sýningunni og bæta við hana með því að teikna myndir eða finna fjörugrjót og koma fyrir.
Landverðir taka vel á móti gestum og veita fræðslu ásamt upplýsingum.