Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Náttúra og lífríki

Lífríki

Snæfellsjökulsþjóðgarður hefur að geyma einstakt lífríki sem mótað er af eldvirkni, návist við jökulinn og sjóinn. Lífríki þjóðgarðsins er allt í senn harðgert og viðkvæmt. Lífverurnar eru vel aðlagaðar að risjóttu veðurfari en síður vel aðlagaðar að miklum ágangi. Til þess að vernda lífríki garðsins er mikilvægt að huga vel að því hvar við stígum og hvernig við göngum um landið.

Gróðurfar

Innan svæðisins má finna ýmsar ólíkar vistgerðir þar sem fjölbreyttur gróður þrífst. Við ströndina skiptast á klettóttar strendur og sandfjörur. Breiður af þara vaxa þar sem skjól er fyrir úthafsöldunni og í sandfjörunum má finna margar saltþolnar plöntur sem gefa landinu lit. Yngri hraun eru oft þakin mosa en þau eldri skrýðast lyngi og grösum. Í hraunbollum og sprungum má oft finna viðkvæmari vistgerðir með blómum og burknum, þessi svæði minna oft fremur á botn gróskumikils laufskógs. Sandar og árfarvegir mynda skilyrði þar sem harðgerðar plöntur eins og melgresi þrífast vel.

Dýr

Í og við Snæfellsjökulsþjóðgarð má finna allt frá hinum smæstu dýrum til hinna allra stærstu. Af landspendýrum er refurinn eina dýrið sem komst til Íslands af eigin rammleik, refir þjóðgarðsins eru friðaðir og því oft forvitnari um mannfólkið en gengur og gerist. Hagamýs þrífast vel á svæðinu og einnig sést stundum minkur á vappi. Úti fyrir ströndinni má finna bæði sel og hval sem algengt er að koma auga á frá landi.

Fuglar eru áberandi í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Svæðið er hvað þekktast fyrir fjölskrúðugt sjófuglalíf. Inn til landsins eru spörfuglar, mófuglar og vaðfuglar algengir. Krían er einkennisfugl svæðisins. Í nágrenni þjóðgarðsins má finna mikil kríuvörp og algengt er að sjá þennan fima fugl afla sér ætis við sjávarsíðuna.

Við sjóinn má finna urmul ólíkra fiska, skel- og krabbadýra. Sprettfiskar sjást oft í fjörupollum ásamt fjörudoppum, krossfiskum og marflóm. Hrúðurkarlar og klettadoppur halda sér föstum á klettum. Úti fyrir ströndini eru gjöful fiskimið sem fólk hefur nytjað frá fornu fari. Einstöku sinnum má jafnvel sjá Beinhákarl synda meðfram ströndinni.