Vatnshellir

Summit Adventure Guides sjá um rekstur Vatsnhellis og skipulagðar ferðir í hellinn.

Nánari upplýsingar um skipulagðar ferðir má sjá hér.

 

Hraunhellir

Vatnshellir er hraunhellir en þeir myndast á meðan hraunið rennur og það er enn að storkna og kólna. Hraunið og hellirinn eru talin vera um 5-8000 ára gömul. Heildarlengd Vatnshellis er um 200 m og þar er hátt til lofts og vítt til veggja.

Hellirinn hefur verið gerður aðgengilegur með hringstigum en umferð um hann er aðeins leyfð með leiðsögn.

Efla fræðslu og þekkingu

Í samræmi við hugmyndir í verndaráætlun þjóðgarðsins ákvað Umhverfisstofnun að fara í verkefnið um Vatnshelli og taldi það vera gullið tækifæri til að efla fræðslu og auka við þekkingu á þeim verðmætum sem hellar og aðrar náttúruminjar eru og stuðla um leið að verndun þeirra. Jafnframt var tilgangurinn að bæta aðgengi að enn einni perlu í þjóðgarðinum.

Hvað er að sjá ?

Vatnshellir er í Purkhólahrauni en hraunið er talið vera eitt hellaauðugasta hraun landsins. Hraunið er basískt helluhraun, um 5 – 8 þúsund ára gamalt. Vatnshelli, eða hellakerfi hans, tilheyra fjórir hellar. Sá efsti er hinn eiginlegi Vatnshellir og er hann öllum opinn. Neðar eru þeir hlutar sem nefndir hafa verið Bárðarstofa og Vættagangur og neðst eru Iður. Saman ganga þeir undir heitinu Undirheimar. Heildarlengd neðri hluta Vatnshellis er um 200 m. Lofthæð er víðast um 10 metrar. Dýpsti hluti hellisins, Iður, er meira en 30 m undir yfirborði jarðar. Í lofti hellisins, einkum Vættagangs, er hvítleitur, glitrandi bakteríu-, eða sveppagróður sem endurkastar ljósi. Fallegar hraunmyndanir eru í hellinum. Þar má sjá lekaspena, drop-, eða kleprasteina, sillur, bríkur og storkuborð. Hraunfoss hefur fallið niður í Iður og eru fallegir taumar niður eftir veggnum. Gólfið í Iðrum er með fínlegu mynstri.

Undirbúningur

Eftir því sem best er vitað var fyrst farið niður í þann hluta Vatnshellis sem gengur undir heitinu Undirheimar upp úr 1960 og hellirinn kannaður 1968. Umferð um hann var þó lítil í byrjun, allt fram yfir 1990.

Með vaxandi umferð í hellum eykst hættan á að viðkvæmar myndanir verði fyrir skemmdum og varð sú raunin í Vatnshelli. Árni B. Stefánsson hellakönnuður vakti athygli yfirvalda umhverfismála á hættunni og lagði hann til að Vatnshelli yrði lokað fyrir óheftri umferð. Vorið 2009 hélt Árni fyrirlestur fyrir almenning um hella í boði þjóðgarðsins. Í kjölfarið var hópi manna boðið í ferð í hellinn, þeirra á meðal bæjarstjóra Snæfellsbæjar Kristni B. Jónassyni. Hann heillaðist af undrum hellisins og fékk öflugan hóp manna til liðs við sig til að vinna að því að gera hellinn aðgengilegan. Árni leitaði til Hjörleifs Stefánssonar arkitekts um að teikna upp og hanna aðkomu að hellinum. Enn ein driffjöður í verkefninu er Þór Magnússon staðarhaldari á Gufuskálum, að öðrum ólöstuðum. Gólfið í Iðrum er með fínlegu mynstri. Nafn sitt dregur hellirinn af því að áður fyrr var sótt vatn í hellinn og kúm frá Malarrifi brynnt við hann í þurrkatíð.

Framkvæmdir

Hellakerfið er á þremur til fjórum hæðum. Frá hæðinni þar sem gengið er inn í Vatnshelli sjálfan þurfti að dýpka jarðfallið eða holuna þaðan sem farið er inn í neðri hellana, þannig að hægt væri að ganga inn í þá uppréttur. Á haustmánuðum árið 2009 voru 15 – 20 rúmmetrar af stórgrýti og jarðvegi fjarlægðir. Í framhaldinu var pallur smíðaður yfir holuna.Turnlaga hýsi var byggt yfir opið á pallinum og hringstigi lagður niður. Annar lægri turn var settur á pallinn og niður um hann getur fólk horft og hægt er að hífa slasaða þar upp. Tröppur voru settar niður í Vættagang. Haustið 2010 var haldið áfram og annar hringstigi settur niður í Iður.

Malbikað var nýtt bílastæði við hellinn, göngustígur gerður og tröppur úr hraunhellum lagðar niður á pallinn. Fræðsluskilti um Vatnshelli og myndun hella var sett upp við bílastæðið. Stærstu framkvæmdunum við Vatnshelli er lokið en ýmsar úrbætur eru á döfinni. Gólfið í Iðrum er viðkvæmt og þarf að marka þar góða leið t.d. með brú. Þá er verið að skoða hugmyndir um lýsingu í hellinum, hvað henti og hæfi honum best. Rannsaka þarf þær lífverur sem eru í lofti hellisins og fylgjast með þeim.