Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Rannsóknir innan þjóðgarðs og friðlanda

Margar áhugaverðar rannsóknir og vaktanir eru stundaðar inn þjóðgarðs og friðlanda. Hér má sjá upplýsingar um yfirstandandi rannsóknir. Snæfellsjökulsþjóðgarður stefnir á að mila niðurstöðum rannsókna sem birtast opinberlega.

Fiðrildavöktun

Náttúrustofan vaktar fiðrildi á Snæfellsnesi með ljósgildrum við Stykkishólm (frá 2012) og Gufuskála (frá 2011).

Fiðrildi eru veidd frá apríl til nóvember og aflinn sóttur vikulega. Með rannsókninni fást betri upplýsingar um fiðrildafánu svæðisins, þ.e. hvaða tegundir er að finna á hvaða svæðum, hlutfallslegt algengi þeirra og hvenær þau eru helst á flugi. Einnig gefur verkefnið mikilvægar upplýsingar um umhverfisbreytingar, svo sem landnám og dreifingu nýrra tegunda og breytingar á flugtíma einstakra tegunda vegna eldgosa, veðurfars og loftslagsbreytinga.

Gildran við Gufuskála er rekin í samvinnu við Snæfellsjökulsþjóðgarð.

Verkefnið er hluti af vöktun fiðrilda á landsvísu, en í henni taka þátt flestar náttúrustofur, Náttúrufræðistofnun Íslands o.fl.

Ábúð refagrenja

Náttúrustofan hefur frá stofnun Snæfellsjökulsþjóðgarðs vaktað hlutfall þekktra refagrenja í ábúð í þjóðgarðinum en býr jafnframt yfir upplýsingum um fjölda unninna refagrenja á svæðinu frá 1989-2001.

Um er að ræða nærri 30 greni sem heimsótt eru um mitt sumar til að meta ábúð.

Hlutfall grenja í ábúð er mælikvarði á stofnbreytingar refa á svæðinu.

Bjargfuglar

Náttúrustofan hefur frá árinu 2008 fylgst með breytingum á fjölda og varpárangri bjargfugla á Snæfellsnesi og sunnanverðum Breiðafirði.

Á Snæfellsnesi nær vöktunin nú til talningarsniða á Arnarstapa, í Þúfubjargi, Saxhólsbjargi og Vallnabjargi.

Á rannsóknarsvæðunum er helsti varpfuglinn rita og sömuleiðis fýll í minna mæli en á utanverðu Snæfellsnesi verpa einnig langvía, stuttnefja og álka. Verkefnið er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og er hluti af landsvöktun bjargfuglastofna, sem stýrt er af Náttúrustofu Norðausturlands. Frá árinu 2020 er verkefnið hluti verkefnisins „Vöktun náttúruverndarsvæða“.