Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

Opnunartími: Alla daga kl. 10:00 – 17:00 Sími: 661-1500

Þjóðgarðsmiðstöð

Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi var opnuð 24.mars 2023.

Skiltasýning um Snæfellsjökulsþjóðgarð prýðir sýningasal en þar er áætlað að varanleg sýning verði sett upp 2024. Þá er fræðslu- og kennslurými ásamt möguleika til fyrirlestrahalda.

Þjónustufulltrúar og landverðir veita almennar upplýsingar og fræðslu um svæðið. Þá er einnig minjagripasala þar sem áhersla er lögð á vörur tengdar þjóðgarðinum.

Veitingastaðurinn Matarlist sér um rekstur veitingasölu innan Þjóðgarðsmiðstöðvar. Þar eru sæti fyrir 40 manns og opnunartími frá kl. 10:00-17:00.

Jökulhöfði

Hönnun hússins heitir Jökulhöfði og kemur frá Arkís arkitektum sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006. Húsið skiptist í þrennt; til suðurs er Jökulhöfði, en það nafn vísar í Snæfellsjökul sem trónir yfir húsinu og hýsir sýningarsal og veitingar, til norðurs er Fiskbeinið sem vísar til fengsælla fiskmiða á svæðinu og hýsir skrifstofur Snæfellsjökulsþjóðgarðs, minjagripaverslun, upplýsingaborð og fræðslurými.

Í gegnum húsið liggur svo Þjóðvegurinn, en hönnun hússins gerir ráð fyrir því að hægt sé að labba þvert í gegnum húsið að innan sem utan.

BREEAM vottun

Þjóðgarðsmiðstöðin er fullhönnuð og byggð út frá alþjóðlegum vottunarstaðlinum BREEAM en þau viðmið ganga út frá að notuð sé umhverfisvæn byggingarefni og að úrgangur sé takmarkaður á byggingartíma og í rekstri sem stuðlar að því að byggingarnar verði fyrir vikið umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri.

BREEAM gengur einnig út á tengsl bygginga við samfélagsmál eins og nærumhverfi, samgöngur og nýjungar sem bæta megi gæði bygginga og umhverfis.

Þeir þættir BREEAM sem eiga einna helst við í Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi;

Daglegur rekstur er miðaður út frá Grænu bókhaldi og í lok hvers rekstrarárs verður sýnt fram á útreikninga á dagsbirtu, orku- og vatnsnotkun.

Þá verður allur úrgangur sem fer frá byggingunni vigtaður. Slíkar kröfur voru jafnframt gerðar á verktaka í gegnum allt byggingarferlið.

Aðgengi að húsinu er til fyrirmyndar en hér eru góðir göngu- og hjólastígar sem liggja til og frá Þjóðgarðsmiðstöðinni.

Hleðslustöðvar munu standa til boða bæði fyrir gesti og starfsfólk þjóðgarðsins.

Allt ferlið í byggingu og rekstri er unnið út frá umhverfisvænustu háttum og efnisval viðhaldslítið (efni fær að veðrast, engin málning utandyra og fl.)

Allt timbur sem notað er í byggingunni er FSC vottað sem þýðir að það er rekjanlegt í öllu framleiðsluferlinu.

Þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi er hönnuð í samræmi við samkeppnistillögu Arkís arkitekta ehf. Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) stjórnuðu byggingaframkvæmd og Húsheild verktakar sáu um verklega framkæmd.

Heildarstærð 710fm

Rými til samfélagslegra nota 600fm

Heildarkostnaður framkvæmda 640 milljónir

Framkvæmdir hófust árið 2020 og lauk árið 2022.

Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi var formlega opnuð 24.mars 2023.