Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Umferð og dvöl

Umferð manna og dvöl

Sérstakar reglur um umferð manna og dvöl í Snæfellsjökulsþjóðgarði sem settar eru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eru eftirfarandi:

  1. Ávallt skal fylgja skilgreindum ferðaleiðum þar sem þær eru til staðar.
  2. Umhverfisstofnun er heimilt að loka tímabundið viðkvæmum svæðum, vegna gróðurverndar, lífríkisverndar eða yfirvofandi hættu og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.
  3. Þeir sem hyggjast setja upp næturhólf fyrir hesta sæki um leyfi þjóðgarðsins. Sama gildir um þá sem ætla að fara með stærri hóp en tuttugu hesta um svæðið. Sótt er um leyfi á heimasíðu þjóðgarðsins.
  4. Almennt er óheimilt að hafa næturdvöl og tjalda innan þjóðgarðsins og er ferðafólki bent á tjaldsvæði í nágrenni hans. Fólki sem kemur inn í þjóðgarðinn fótgangandi eða á reiðhjóli með allan sinn farangur er þó heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á skilgreindum tjaldstöðum sbr. auglýsingu 935/2021. Ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða, skipulagða hópferð eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur þarf leyfi þjóðgarðsins. Tjaldstaður vísar til þess að ekki er um skipulagt tjaldsvæði að ræða.
  5. Til verndar lífríki þjóðgarðsins og til að valda sem minnstu ónæði fyrir gesti er einungis heimilt að lenda þyrlum innan þjóðgarðs á ákveðnum tímum og á skilgreindum lendingarstöðum. Leyfi Umhverfisstofnunar þarf vegna undantekninga frá þeirri reglu.
  6. Vegna lífríkisverndar og til að tryggja góða upplifun gesta er óheimilt að fljúga fjarstýrðum loftförum innan þjóðgarðsins á tímabilinu 15. apríl – 15. september nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Bannið gildir um svæðið meðfram ströndinni og neðan Útnesvegar (574). Svæðið verður merkt inn á kort þjóðgarðsins. Undanþegnar banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir, starfsemi Landhelgisgæslunnar, sbr. reglugerð nr. 60/1998 og reglugerð nr. 1185/2012 og þær stofnanir sem sinna lögbundnum rannsóknum og eftirlitshlutverki með náttúru- og menningarminjum.