Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Jarðfræði

Snæfellsjökull

Snæfellsjökulsþjóðgarður er vestast á Snæfellsnesi og flatarmál hans er 183 km2. Að sunnan liggja mörk hans um austurjaðar Háahrauns í landi Dagverðarár og að norðan á austurmörkum Gufuskálalands. Jökulhetta Snæfellsjökuls er innan þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra þjóðgarða að vera sá eini með minjar frá útræði fyrri alda.

Strönd Snæfellsness er fjölbreytileg þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann. Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hafa frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi. Hraunin eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.

Landslagið

Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og greinilega má sjá hvernig hraunstraumar og hraunfossar hafa runnið niður eftir hlíðum hans. Undirfjöll hans, svo sem Hreggnasi, Geldingafell og Svörtutindar, eru margbreytileg að lögun. Eysteinsdalur gengur upp frá láglendinu að norðanverðu en þar er komið í annað landslag, dal girtan fjöllum sem kalla á göngufúsa fætur. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli.
Nokkrir fallegir fossar eru á svæðinu. Klukkufoss er við rætur Hreggnasa og er stuðlaberg allt um kring. Nokkru austar, í Blágili, falla tveir fossar í einn hyl og hafa þeir verið nefndir Þverfossar.

Jarðfræði

Jarðfræði Snæfellsness er afar fjölbreytt og jarðmyndanir eru frá nær öllum tímabilum í jarðsögu Íslands. Eldstöðvakerfið sem kennt er við Snæfellsjökul er sterk landslagsheild og sýnir menjar eftir einstæð eldsumbrot, bæði frá síðasta jökulskeiði og eftir að ísöld lauk. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1800 árum en eldstöðin er talin vera virk ennþá. Kerfið er u.þ.b. 30 km langt og nær frá Mælifelli í austri að Öndverðarnesi í vestri og jafnvel lengra en yfir 20 hraun tilheyra kerfinu. Lífæð eldstöðvakerfisins er kvikuþró sem liggur á nokkurra kílómetra dýpi undir jöklinum sjálfum.

Hraunmyndanir

Í og við þjóðgarðinn ber mest á jarðmyndunum frá síðasta jökulskeiði og nútíma. Fjöllin norðan Snæfellsjökuls eru úr móbergi og hafa myndast við gos undir jökli eða í sjó. Svalþúfa er líklegast austurhluti gígs sem gosið hefur í sjó og Lóndrangar gígtappar. Hraun eru áberandi í landslagi þjóðgarðins, bæði úfin apalhraun og sléttari helluhraun. Stór hluti þeirra hefur runnið úr Snæfellsjökli, bæði úr toppgígnum og úr gígum í hlíðum fjallsins.

Hraunmyndanir eru margbreytilegar og fallegar og er svæðið auðugt af hellum. Ferðamönnum er eindregið ráðið frá því að fara í þá nema í fylgd kunnugra. Fólki getur stafað hætta af hruni í sumum hellanna og í öðrum geta verið viðkvæmar hraunmyndanir. Boðið er upp á ferðir með leiðsögn í Vatnshelli sem er einn fegursti hellirinn á svæðinu. Þar gefst einstakt tækifæri til að  fræðast um hella og hvernig þeir myndast (hlekkur á Vatnshellissíðu). Á láglendi eru eldvörpin Purkhólar, Hólahólar, Saxhólar og Öndverðarneshólar og umhverfis eru hraun sem runnið hafa úr þeim.