Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Um þjóðgarðinn

Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður 28. júní 2001. Hann hefur að geyma sérstæða náttúru og merkilegar söguminjar.

Þjóðgarðurinn er 183 km2 og nær yfir fjölbreytt landslag sem spannar land frá fjalli niður í fjöru. Landið er mótað af eldvirkni, jökul- og sjávarrofi.

Ýmis áhugaverð landslagsfyrirbæri eru innan garðsins svo sem gígar, hraun, hellar, sjávarhamrar og sandfjörur í ljósum og dökkum lit.

Í Snæfellsjökulsþjóðgarði er fjölbreytt jarðfræði, gróðurfar og dýralíf. Á varptíma má sjá helstu sjófuglategundir landsins við ströndina. Ef þú ert heppin má sjá hvali og seli úti fyrir ströndinni.

Inn til landsins eru mó- og spörfuglar algengir. Krían er einkennandi fyrir svæðið og eru ein stærstu kríuvörp landsins í nágrenni garðsins. Refir sjást reglulega á vappi um garðinn og stilla sér stundum upp fyrir myndatökur.

Gróðurfar einkennist af harðgerðum gróðri sem vex á opnum svæðum sem og viðkvæmari gróðri sem finnst á skjólsælum stöðum. Ef vel er að gáð má finna fjölda tegunda burkna sem vaxa í hraungjótum.

 

Snæfellsjökull er virk eldkeila og telst megineldstöð svæðisins. Í hlíðum fjallsins og umhverfis það má sjá mikil ummerki um eldgos og eldvirkni. Þar má meðal annars sjá úfin apalhraun, slétt helluhraun, móberg, vikur og ljósa líparítgúla.

Landslag innan þjóðgarðsins er markað af nýtingu mannsins. Sagan er við hvert fótspor og spannar tíma allt frá landnámi til dagsins í dag. Finna má gamla búðarveggi, naustir, bæi og fiskbyrgi víðsvegar um garðinn.

Örnefni eiga sér skírskotun í landnotkun sem og til gamalla sagna svo sem Bárðarsögu Snæfellsáss.

 

Hér má lesa auglýsingu um friðlýsingu Snæfellsjökulsþjóðgarðs.