Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Þjóðgarðsráð kom saman í Snæfellsjökulsþjóðgarði

Á dögunum fóru fulltrúar í þjóðgarðsráði Snæfellsjökulsþjóðgarðs um þjóðgarðinn og heimsóttu vinsæla áfangastaði ferðamanna og þá staði sem eru undir miklu álagi vegna skorts á innviðum.

Undanfarin ár hafa framkvæmdir átt sér stað til að bæta aðgengi og þjónustu í Snæfellsjökulsþjóðgarði m.a. þegar ný Þjóðgarðsmiðstöð var opnuð árið 2023 sem bætir miðlun upplýsinga til innlendra og erlendra ferðamanna ásamt því að fjölga salernum. Þá eflir einnig Þjóðgarðsmiðstöð fræða- og menningarsamfélag á Snæfellsnesi.

Þjóðgarðsráð lagði áherslu á að brýnt væri að klára uppbyggingu innviða við Djúpalónsand en það er sá staður sem er mest sóttur af gestum þjóðgarðsins, enda mikil náttúruperla.

Þjóðgarðsráð á Djúpalónsandi.

Þrýst hefur verið á frekara fjármagn til uppbyggingu Dritvíkurvegar sem liggur að Djúpalónsandi. Vegurinn er einbreiður og byggður á þeim tíma þegar umferð um hann var umtalsvert minni en er í dag enda lætur vegurinn mikið á sjá vegna umferðarþunga og ljóst að öryggi er ábátavant. Árið 2023 fóru rúmlega 200.000 manns á Djúpalónsand og þegar mest var voru um 500 farartæki (rútur og einkabílar) sem fóru um Dritvíkurveg á einum degi.

Framkvæmdir við nýtt bílastæði er hafið og stefnt er á lagfæringu á núverandi bílastæði ofan Djúpalóns á haustdögum. Það var samhljómur meðal fulltrúa þjóðgarðsráðs að ástand innviða við Djúpalón væri óásættanlegt og eitt brýnasta verkefni framundan væri að bæta aðgengi og tryggja öryggi gesta sem heimsækja Djúpalónsand.

Þá telur þjóðgarðsráð brýnt að hefja byggingu á nýju salernishúsi sem búið er að hanna og er ætlað að taka við af núverandi salernishúsum sem eru komin vel til ára sinna.

Á fundi þjóðgarðsráðs var einnig farið yfir hvernig líðandi sumar gekk, en það hefur gengið einstaklega vel með góðu starfsfólki. Í boði var metnaðarfull fræðsludagskrá alla daga vikunnar sem almennt voru vel sóttar. Á komandi árum er stefna Snæfellsjökulsþjóðgarðs að gera enn betur með bættum innviðum, fjölbreyttri fræðslu og vonandi fleiri góðum sólardögum.

Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðarsvörður ásamt þjóðgarðsráði. Inga Dóra Hrólfsdóttir (Umhverfisstofnun), Magnús A. Sigurðsson (Minjastofnun Íslands), Kristinn Jónasson, formaður (Snæfellsbær), Sigurður Guðjónsson (Samtök Útivistarfélaga). Á myndina vantar Önnu Hallgrímsdóttur (Náttúruverndarsamtök) og Þórð Runólfsson (Ferðaþjónustusamtök á Snæfellsnesi).

Hlutverk þjóðgarðsráðs er að fjalla um framkvæmdaráætlun og áherslur fyrir þjóðgarðinn, samvinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og stefnumarkandi mál er varða þjóðgarðinn.

Deila frétt