Unnið hefur verið að endurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem var friðlýstur árið 2001.
Gerð áætlunarinnar var í höndum samstarfshóps og unnin í samvinnu við hagsmunaaðila.
Tillaga að áætluninni og aðgerðaáætlun í tengslum við hana hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er vestast á Snæfellsnesi. Markmiðið með friðlýsingu þjóðgarðsins er að vernda fagra og fjölbreytilega náttúru svæðisins og merkar sögulegar minjar. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því.
Eins og áður segir liggja drög að áætluninni nú frammi til kynningar og er öllum frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar.
Hér má lesa nánar um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og skila inn ábendingum.
Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til 1. september 2022.