Rekstur Vatnshellis boðinn út

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að bjóða út rekstur Vatnshellis í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Ferðamönnum á Snæfellsnes hefur fjölgað undanfarin ár einkum utan háannatíma og samhliða því eftirspurn eftir hellaferðum. 

Vatnshellir var gerður aðgengilegur almenningi í þeim tilgangi að vernda hann, kynna hella og hellavernd og um leið að hvetja fólk til góðrar umgengni um hella og náttúru landsins. Tilgangur þjóðgarðsins Snæfellsjökuls er m.a. að styðja við þróun og nýsköpun atvinnulífs í tengslum við þjóðgarðinn, ekki síst í heimabyggð. Að bjóða út skilgreinda þjónustu innan þjóðgarðsins styður við þá hugmynd og eykur samvinnu milli heimamanna og þjóðgarðsins. Þróun atvinnutækifæra innan þjóðgarðs í sátt við náttúruna eykur skilningur á verndun náttúru og hvetur til frekari verndar.

Markmið útboðsins er meðal annars að tryggja að almenningur geti notið heimsókna í Vatnshelli allan ársins hring gegn hæfilegu gjaldi. Tilvonandi rekstraraðili kemur til með að vinna í nánu samstarfi við stafsmenn þjóðgarðsins og Umhverfisstofnunar.

Skipulagðar ferðir í Vatnshelli hófust sumarið 2010 og var þá farið í hluta hellisins, þrjá daga vikunnar. Það sumar komu um 1600 manns í hellinn. Sumarið 2011 var landvörðum fjölgað og þá voru farnar fimm ferðir á dag alla daga vikunnar. Um 5400 manns heimsóttu þá hellinn. Árið eftir komu um 3400 manns í hellinn. Þessi fyrstu þrjú ár sá þjóðgarðurinn um reksturinn á hellinum. Umhverfisstofnun ákvað vorið 2013 að semja við einkaaðila um að sjá um rekstur Vatnshellis í tilraunaskyni og gilti samningurinn út árið. Sumarið 2013 komu tæplega átta þúsund manns í hellinn. Erlendum ferðamönnum fjölgaði mjög mikið frá fyrra ári en íslenskir stóðu í stað. 

Ekki hefur verið boðið upp á fastar ferðir yfir vetrartímann  en reynt að sinna óskum um ferðir eins og kostur er. Undanfarin ár hafa stjórnvöld lagt áherslu á að efla ferðaþjónustu á þeim árstíma undir kjörorðinu, „ Ísland allt árið“. Ferðaþjónustan á Vesturlandi  svo og Snæfellsbær hafa einnig lagt áherslu á að hægt sé að bjóða ferðir í hellinn á veturna, í takt við stefnu stjórnvalda.

Takmarkaður fjöldi ferðamanna fer í hellinn hvern dag og er það mat þjóðgarðsins að vaxtarbroddur í hellaferðunum liggi einkum  í þjónustu yfir vetrartímann, sérstaklega vor og haust. 

Útboðið hefur verið auglýst á vef Ríkiskaupa og þangað á að beina fyrirspurnum.

Deila frétt