Gestastofa á Malarrifi
Opnunartími: Alla daga kl. 11:00 – 16:00 Sími: 661-9788 snaefellsjokull@snaefellsjokull.is
Gestastofa á Malarrif
Gestastofa Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Malarrifi er reist úr gömlu fjárhúsum Malarrifsbæjar og var opnuð árið 2016. Nýttar voru innréttingar sem voru til staðar á borð við jötur, fjárböð og fleira sem myndar umgjörð um sýningu gestastofunnar en þemað er vermaðurinn og náttúran, hvernig vermenn nýttu náttúruna til að sjá sér farboða. Höfðað er til allra skilningavita og gestir hvattir til að smakka og lykta.
Barnahorn er til staðar þar sem börnum gefst kostur á að þreifa á skeljum og beinum. Lítil minjagripasala ásamt salernum, þrjú salerni innan dyra og tvö salerni úti sem opin eru allan sólarhringinn. Útisvæðið við Malarrif er frábær áningastaður fyrir alla fjölskylduna. Nestisbekkir og leiktæki í nærandi umhverfi náttúrunnar.
Malarrif
Gestsofan stendur við enda Purkhólahrauns á syðri hlið þjóðgarðs er gamall sveitabær að nafni Malarrif. Var stundaður þar hefðbundinn búskapur og frá 1917 var vitavörslu einnig sinnt af ábúanda þar.
Í þurrkatíð þegar vatnslaust var á Malarrifi þurfti að sækja vatn fyrir kýrnar og var þá farið og vatni ausið upp úr efsta hluta Vatnshellis. Búið var á Malarrifi fram til 1991 og lagðist þá af föst búseta innan þess svæðis sem síðar varð þjóðgarður. Vitinn var reistur árið 1917 en byggður að nýju árið 1946.
Salthúsið
Í Salthúsinu er að finna sýningu sem nemendur í Lýsuhólsskóla settu upp árið 2016 og sinna árlega.
Megin áhersla sýningunnar er að endurvinna, endurnýta og nota náttúruleg efni við sýningamuni en á sýningunni má finna hin ýmsu verk eftir nemendur, þar á meðal, teikningar, skúlptúra og steina sem breytt hefur verið í furðuverur.
Gestir geta tekið þátt í sýningunni með því að bæta við hana með því að teikna myndir eða finna fjörugrjót og koma fyrir.