Degi íslenskrar náttúru fagnað um allt land

Uppfært

Gönguferðinni frá Dimmuborgum að Birtingatjörn sem átti að hefjast kl. 17 verður frestað vegna veðurs.

Örnefni, stjörnur, náttúruljóð, jarðfræði, jurtalitun, útikennsluapp, laxalíf, skipulagsuppdrættir,  náttúruratleikur og kvikmyndafrumsýning er meðal þess sem almenningi gefst kostur á að kynna sér og njóta á Degi íslenskrar náttúru, sem fagnað verður um allt land á mánudag, 16. september.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra mun í tilefni dagsins veita fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á sérstakri hátíðarsamkomu við Elliðavatnsbæinn sem hefst klukkan 13:30 á mánudag.

Eftirtaldir eru tilnefndir til Fjölmiðlaverðlaunanna nú:

  • Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri tímaritsins Í boði náttúrunnar
  • Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður
  • Svavar Hávarðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er veitt einstaklingi sem hefur unniðmarkvert starf á sviði náttúruverndar.

Fjölbreytt dagskrá

Meðal annarra viðburða má nefna að ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) bjóða til jarðfræðigöngu um Búrfellsgjá og Búrfell. Á leiðinni verður rýnt í jarðfræðina með aðstoð nýútkomins jarðfræðikorts af Suðvesturlandi þar sem hraun, sprungur, misgengi, grunnvatn og mannvistarleifar koma við sögu. Landmælingar Íslands bjóða til örnefnagöngu á Akranesi og á sunnanverðum Vestfjörðum býður sérfræðingur Umhverfisstofnunar til göngu um Surtarbrandsgil.  Þá býður Náttúrustofa Austurlands og Fjarðabyggð upp á fjölskyldugöngu um Hólmanes og á Mývatni verður ný gönguleið frá Dimmuborgum opnuð.

Víða verða söfn opin almenningi og má þar nefna Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum og Sagnagarð fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti. Þá býður Náttúrustofa Suðausturlands til stjörnuskoðunar í stjörnuverinu í Nýheimum á Höfn.

Grænfánar verða einnig afhentir á Degi íslenskrar náttúru; í Hjallastefnuleikskólanum Velli í Reykjanesbæ og í Háskólanum á Akureyri sem þar með verður fyrstur íslenskrar háskóla að fá Grænfánann.

Saga Mývatns verður rakin í fyrirlestri forstöðumanns RAMÝ og Skipulagsstofnun verður með opið hús og leiðsögn Péturs H. Ármannssonar arkitekts um gamla skipulagsuppdrætti.

Veiðimálastofnun býður upp á stutta kynningu á lífríki vatnsins á tveimur stöðum á landinu, umhverfisnefnd Garðabæjar býður upp á fuglaskoðun í friðlandi Vífilsstaðavatns og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur býður til náttúruskoðunar í Öskjuhlíð undir yfirskriftinni „Lífríkið er allt um kring”.

Loks má nefna að afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson, frumsýnir þrjár kvikmyndir í Bíó Paradís: Heimilda- og fræðslumyndina „Akstur í óbyggðum“ og tvö tónlistarmyndbönd.

Dagskrá Dags íslenskrar náttúru.

Deila frétt