Árið 2023

Gleðilegt nýtt ár.

Árið var sérdeilis viðburðaríkt og gestkvæmt en rúmlega 430 þúsund gestir kíktu til okkar í þjóðgarðinn.

Við opnuðum spánýja Þjóðgarðsmiðstöð við hátíðlega athöfn þann 23. mars sl. og við sama tilefni undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, undir nýja stjórnunar- og vendaráætlun fyrir þjóðgarðinn, við kynntum nýtt merki og breyttum nafni þjóðgarðins í Snæfellsjökulsþjóðgarð. Rúmlega 250 manns komu á hátíðina og nutu vel með okkur í þessari fallegu byggingu.

Við bættum í hópinn okkar og voru fjórir starfsmenn ráðnir í heilsársstörf og eru því sjö heilsársstarfsmenn í þjóðgarðinum í dag, að viðbættum fimm sumarlandvörðum sem nutu veðurblíðunnar á Snæfellsnesi með okkur og lögðu sitt af mörkum við margar af þeim framkvæmdum sem ráðist var í á árinu og bæta aðgengi að perlum þjóðgarðsins.

Við höfum átt farsælt samstarf með ýmsum aðilum úr mennta, fræða- og vísindasamfélaginu, ekki síst úr nærsamfélaginu hvar átthagafræðikennsla í Grunnskóla Snæfellsbæjar hefur sannað gildi sitt. Í nýju þjóðgarðsmiðstöðinni hafa þegar verið haldnir tónleikar, fyrirlestrar, málþing, myndlistasýningar og allskonar sem eflir menninga- og fræðasamfélagið okkar.

Við hlökkum til nýs árs og tökum fagnandi á móti þér í Snæfellsjökulsþjóðgarði.

Deila frétt