Kvorning Design og Yoke frá Danmörku og Verkstæðið frá Íslandi áttu saman vinningstillöguna í hönnunarsamkeppni um sýningu í Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi.
Þrjár tillögur voru í lokasamkeppninni eftir forval hjá Ríkiskaupum, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs.
Líkan af þjóðgarðinum miðpunkturinn
Sýningunni í Þjóðgarðsmiðstöðinni er ætlað að höfða til breiðs hóps, jafnt heimafólks sem innlendra og erlendra gesta. Sýningin mun bjóða upp á leiðsögn um mannheima, náttúruna og dulræna heima í fylgd þjóðsagnapersónu Bárðar Snæfellsáss. Miðpunktur sýningarinnar er líkan af Snæfellsjökulsþjóðgarði sem þræðir inn upplýsingagjöf um þjóðgarðinn fyrir gesti. Gert er ráð fyrir því að sýningin flæði fallega um rýmið, gefi svigrúm fyrir tímabundnar sýningar og aðra menningartengda viðburði.
Samkeppni um þrjár sýningar
Þrjár samkeppnir í þjóðgörðum voru auglýstar á Evrópska efnahagssvæðinu í apríl 2023 fyrir:
- Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð
- Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri
- Gestastofu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs á Skútustöðum við Mývatn
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var ráðgefandi aðili samkeppninnar en Ríkiskaup sáu um framkvæmd hennar.
Þrjú teymi í forvali
Hönnunarsamkeppnin var í tveimur þrepum þar sem þrjú teymi voru valin í forvali til að vinna að og leggja fram lokatillögur undir nafnleynd að hönnun og uppsetningu grunnsýningar.
Tvær dómnefndir voru skipaðar, hvor fyrir sitt þrep keppninnar, af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs. Af þeim þremur teymum sem valin voru í forvalinu fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð voru tvö íslensk og eitt erlent.