Á dögunum undirritaði Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN) viljayfirlýsingu um samstarf.
Með viljayfirlýsingunni er ætlunin að efla samstarf og sýnileika á milli stofnanna. Samstarfið mun m.a. felast í því að FSN hafi tök á að nýta aðstöðu í gestastofum Snæfellsjökulsþjóðgarðs til skapandi starfa og verkefna nemenda.
Einnig felur samstarfið í sér miðlun fræðslu frá starfsfólki Snæfellsjökulsþjóðgarðs til nemenda FSN með fyrirlestrum og erindum eða öðrum þáttum sem samstarfsaðilum kemur saman um.
Árlega hafa nemendur í umhverfisfræði áfanga FSN komið í Snæfellsjökulsþjóðgarð og fengið fræðslu um störf landvarða og starfsemi þjóðgarðsins. Snæfellsjökulsþjóðgarður fagnar því að geta eflt enn frekar fræðslu til nemenda um mikilvægi náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og landvörslu.
Forstöðumenn gera með sér samstarfssamning um hvert ofantalinna verkefna eða önnur sem ákveðið er að hafa samstaf um. Í samningnum er gerð grein fyrir hlutverki, ábyrgð og kostnaðarhlutdeild hvors aðila um viðkomandi verkefni.