Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verði hluti af UNESCO svæði

Skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu þess efnis að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verði hluti af fyrsta UNESCO Man and Biosphere svæði á Íslandi á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes stendur fyrir verkefninu í samvinnu við sveitarfélögin Snæfellsbæ, Grundarfjörð, Stykkishólm og Eyja- og Miklaholtshrepp. 

Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður, skrifaði undir viljayfirlýsinguna við formlega athöfn í Þjóðgarðinum þann 24. ágúst sl.  

Viðstödd voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-,  orku- og loftslagsráðherra, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri á sviði náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, stjórn Svæðisgarðs Snæfellsness, fulltrúar bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, Þjóðgarðsráð, Hollvinasamtök Þjóðgarðsins og starfsfólk Þjóðgarðsins. 

Mynd: Ráðherra ásamt starfsfólki Þjóðgarðsins og Umhverfisstofnunar. Frá vinstri: Jón Grétar Borgþórsson, landvörður, Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri, Sturla E. Jónsson, landvörður, Guðmundur Jensson, landvörður, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, Rut Ragnarsdóttir, þjónustustjóri Þjóðgarðsins, Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður og Sigrún Ágústsdóttir. forstjóri Umhverfisstofnunar.

Hópurinn tók þátt í fræðandi dagskrá í Þjóðgarðinum og á Snæfellsnesi.  

UNESCO Man and Biosphere (MaB) verkefnið tengir náttúru- og félagsvísindi við efnahagsmál, menntun og rannsóknir í þeim tilgangi að bæta lífsgæði og stuðla að bættri afkomu íbúa, sem og að vernda náttúrleg og manngerð vistkerfi. 

MaB verkefnið mun efla samstarf Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og Svæðisgarðsins Snæfellsnes enn frekar.

Mynd: Á Malarrifi bauð Þjóðgarðurinn gestum upp á ljúffenga fiskisúpu frá kaffihúsinu Gilbakka á Hellissandi. Hér má sjá Önnu Þóru, eiganda Gilbakka, gefa ráðherra súpu.

Deila frétt