Vegur að Djúpalóni og Saxhól lokaðir til 22. september!

Nánar

Þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs formlega opnuð

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði formlega nýja þjóðgarðsmiðstöð í þjóðgarðinum Snæfellsjökli á Hellissandi 24. mars sl. Við þetta sama tækifæri fékk þjóðgarðurinn nýtt merki og nafni þjóðgarðsins breytt í Snæfellsjökulsþjóðgarð. Einnig skrifaði ráðherra undir nýja stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. 

Það var mikill hátíðarbragur á opnuninni og mættu um 200 manns og fögnuðu langþráðri opnun þjóðgarðsmiðstöðvar. Auk Guðlaugs Þórs umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mættu þrír fyrrverandi umhverfisráðherrar, Sigríður Anna Þórðardóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson og  klipptu bæði núverandi og fyrrverandi ráðherrar á borðann. 

Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunnar opnaði dagskrána og bauð alla velkomna. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hélt opnunarræðu og sagði m.a.:

„Mikil uppbygging hefur átt sér stað innan þjóðgarðsins á undanförnum árum og fyrir atbeina og væntumþykju Snæfellinga fyrir þjóðgarðinum og hans vexti hefur nú verið reist þessi glæsilega þjóðgarðsmiðstöð.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar talaði um í ræðu sinni uppbyggingu þjóðgarðsins frá stofnun og mikilvægi  þjóðgarðsins fyrir samfélagið. Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður kom inn á hvaða hlutverki þjóðgarðsmiðstöðin ætti að gegna í framtíðinni. Sagði hann m.a.:

Að þetta hús verði ekki bara gestastofa fyrir gesti þjóðgarðsins, heldur einnig fræðahús og félagsmiðstöð. Að hér vilji fólk koma aftur og aftur, eiga stund saman hvort sem það eru skólahópar í fræðslu, koma til að skoða tímabundnar sýningar sem verður gefið rými hér inni, á fundum eða ráðstefnum eða bara til að hittast yfir kaffibolla hér í tilvonandi veitingaaðstöðu og spjalla um mikilvæg málefni eins og veðrið.

Sýningar í þjóðgarðsmiðstöðinni

Í þjóðgarðsmiðstöðinni hefur verið sett upp tímabundin sýning með helstu upplýsingum um þjóðgarðinn. Stefnt er á að aðalsýning þjóðgarðsmiðstöðvarinnar verði komin upp sumarið 2024, en hönnun þeirrar sýningar fer í verðlaunasamkeppni á næstu dögum. 

Breyttur opnunartími

Í apríl verður opnunartími þjóðgarðsmiðstöðvar frá kl. 10:00-16:00 alla virka daga og salerni utanhúss opin allan sólahringinn. Í sumar verður opnunartíminn lengdur og verður þá opið alla daga vikunnar.

Starfsfólk þjóðgarðsins hlakkar til  að taka á móti gestum á komandi sumri. Með tilkomu þjóðgarðsmiðstöðvar er verið að bæta þjónustu við gesti með aukinni upplýsingagjöf og fræðslu og síðast en ekki síst fjölgun salerna fyrir gesti þjóðgarðsins. Með tilkomu hússins er einnig möguleiki á að efla tengsl við samfélagið og samstarf við skóla- og fræðasamfélagið. 

Þjóðgarðsráð: Kristinn Jónasson, formaður þjóðgarðsráðs, Inga Dóra Hrólfsdóttir, Iðunn Bragadóttir, Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður, Magnús A. Sigurðsson, Anna Hallgrímsdóttir og Þórður I. Runólfsson
Deila frétt