Nú fyrir helgi lauk síðustu fræðslugöngu sumarsins í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Fræðsludagskrá þjóðgarðsins hófst 6. júní og stóð fram til 12. september. Í sumar hafa landverðir þjóðgarðsins staðið fyrir fjölbreyttum göngum með leiðsögn um ólík svæði. Auk þess hafa landverðir boðið uppá í barnastundir í þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi í hverri viku í júní og júlí. Til gamans má geta að rúmlega 400 gestir lögðu leið sína í fræðslugöngur og viðburði þjóðgarðsins í sumar. Enn fremur hafa margir hópar víðs vegar að landinu heimsótt gestastofur þjóðgarðsins í sumar og fengið fræðslu um starfsemi og náttúruvernd.

Nú tekur við fræðslutímabil sem sérstaklega beinist að skólahópum og því góða samstarfi sem þjóðgarðurinn á við skólana á Snæfellsnesi. Þjóðgarðurinn mun áfram leggja áherslu á að miðla fræðslu og auka þekkingu á náttúru og umhverfi svæðisins. Í haust hafa nú þegar vaskir krakkar frá Lýsudeild heimsótt Þjóðgarðmiðstöðina á Hellissandi sem og nemendur í 5. bekk frá grunnskóla Snæfellsbæjar fengið fræðslu landvarðar um fjölbreytt lífríki svæðisins.
Takk kærlega fyrir komuna og góða þátttöku í fræðsludagsskrá þjóðgarðsins í sumar. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs í vetur og minnum á að Snæfelljökulsþjóðgarður býður skólum og hópum velkomna allt árið um kring.