3. áfangi Skálasnagi-Beruvík
Laugardaginn 18 ágúst s.l. var genginn þriðji áfanginn af sex í strandgöngu þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og var það jafnframt síðasta skipulagða ganga sumarsins á vegum hans. Gengið var frá Skálasnaga að Beruvík og tók gangan rúmlega 5 klst.
Sæmundur Kristjánsson landvörður og leiðsögumaður frá Rifi leiddi gesti um sögusvæði vitavörslu, bjargnytja, skipsstranda og búskapar ásamt því að fugla-, plöntu- og dýralífinu voru gerð góð skil. Rákust göngumenn m.a. á tófu sem þeim erlendu þótti sérlega gaman að sjá. Einnig rakst hópurinn á rjúpnahreiður með eggjum en ólíklegt er að rjúpan sú komi ungum á legg svona seint. Kíkt var í hverja gjótu eftir ferlaufungi sem vex á þessu svæði en hann fannst þó ekki í þetta skiptið enda er ferlaufungur ein af sjaldgæfustu plöntum landsins og friðlýst tegund. Í Beruvíkinni fannst planki úr Skeiðarárbrúnni sálugu sem rak vestur með suðurströnd landsins og allt á Rauðasand á örfáum dögum eftir hlaupið 1996.
Þáttaka í sumardagskrá þjóðgarðsins hefur verið mjög góð og þakka þjóðgarðsvörður og landverðir gestum fyrir þátttökuna og ánægjulega samveru í viðburðum sumarsins. Þess má geta að Gestastofa þjóðgarðsins á Hellnum verður opin alla daga frá 10-18 til og með 10. september.




