Sögulegt ár í gestakomum

Árið sem leið var farsælt og viðburðaríkt í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Starfsemi ársins einkenndist af fjölbreyttum verkefnum, auknum fjölda gesta, nýjum starfsmönnum og verðmætri reynslu sem styrkti starfsemi þjóðgarðsins enn frekar.

Náttúruverndarstofnun hóf störf 1. janúar 2025 og tók Snæfellsjökulsþjóðgarð formlega til sinna verkefna á sviði náttúruverndar, lífríkis- og veiðistjórnunar. Ragnhildur Sigurðardóttir hóf störf sem þjóðgarðsvörður og tók við af Hákoni Ásgeirssyni í mars.

Gestafjöldi í þjóðgarðinum náði sögulegu hámarki þegar 471.000 gestir heimsóttu svæðið á árinu. Fræðslu- og viðburðastarf var öflugt, rúmlega 400 gestir tóku þátt í fræðslugöngum og viðburðum yfir sumarið. Opið erindi Sævars Helga Bragasonar var haldið í þjóðgarðsmiðstöðinni um almyrkva á sólu og markaði fyrstu skref í undirbúningi fyrir sólmyrkvann sem mun eiga sér stað 12. ágúst 2026.

Landvarðanámskeið var vel sótt og gegnir námskeiðið áfram mikilvægu hlutverki í að efla og varðveita faglega þekkingu í umsjón náttúruverndarsvæða. Þátttakendur á námskeiðinu komu ásamt kennurum í staðlotu í Snæfellsjökulsþjóðgarð og fengu meðal annars innsýn í starfsemi þjóðgarðsins. Starfsmenn þjóðgarðsins voru sjö í heilsársstörfum og allt að fjórtán yfir háannatímann. Allt starfsfólk þjóðgarðsins lauk fyrstu hjálpar námskeiði Landsbjargar í byrjun sumars.

Mikilvægum framkvæmdum lauk á Dritvíkurvegi, þar sem vegurinn var breikkaður og lagður bundnu slitlagi. Með framkvæmdinni var tengingin við Djúpalónssand frá þjóðveginum bætt og umferðaröryggi aukið. Vegurinn var formlega opnaður á afmælisdegi þjóðgarðsin, 28.júní með viðhöfn. Elja kaffihús hóf starfsemi í þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi svo eftir var tekið.

Snæfellsnes hlaut viðurkenningu UNESCO sem fyrsti vistvangur (e.man and biosphere) Íslands, þar sem landsvæði Snæfellsjökulsþjóðgarðs varð kjarnasvæði. Náttúruverndarstofnun hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2025 fyrir framúrskarandi nálgun við uppbyggingu gestastofa með hönnun og arkitektúr að leiðarljósi. Þar er þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi meðal og ný grunnsýning gestastofunnar.

Ný grunnsýning var opnuð í þjóðgarðsmiðstöðinni að viðstöddu fjölmenni. Áhersla er lögð á jarðfræði, dulúð jökulsins, þjóðsögur og fjölbreytni svæðisins á sýningunni. Fjölbreyttar listsýningar prýddu einnig miðstöðina, þar á meðal sýningar Birgitar Guðjónsdóttur og Annette Goessel. Sýning nemenda í grunnskóla Snæfellsbæjar og grunnskóla Grundarfjarðar vakti mikla lukku og stóð yfir í allt sumarið.

Farsælt samstarf við mennta-, fræða- og vísindasamfélagið, ekki síst við nærsamfélagið er mikilvægt fyrir þjóðgarðinn og heldur áfram að lita starfsemina okkar. Við fengum fjölmarga skóla-, vinnustaðahópa, sem og félagasamtök til okkar í heimsókn.  Í þjóðgarðsmiðstöðinni voru haldnir tónleikar, fyrirlestrar, málþing og sýningar sem styrktu menningar- og fræðslustarf svæðisins.

Við lítum yfir árið með hlýju og hlökkum til komandi verkefna og samveru með gestum og heimafólki.

Deila frétt