Samráð við börn og unglinga um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul

Í vinnu við endurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls er víðtækt samráð við hagsmunaaðila mikilvægt. Einn hópur hagsmunaaðila er unga fólkið í Snæfellsbæ sem hafði margt fram að færa um stefnumótun og framtíðarsýn þjóðgarðsins á fundum sem Umhverfisstofnun hélt með þeim nýlega. Fyrsti fundurinn var með nemendum í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem hugmyndavinnan var frjó og skemmtileg. Sömu sögu má segja frá Grunnskóla Snæfellsbæjar þar sem um 20 nemendur í 5-10 bekk tóku þátt í Ólafsvík og allir nemendur í Lýsuhólsskóla. 
 
Samráðsfundirnir eru hugsaðir sem eins konar barnaþing um þjóðgarðinn en samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er réttur barna að láta skoðanir sínar í ljós í málefnum sem þau varðar og á það svo sannarleg við um stefnumótun þjóðgarða. Um barnaþing segir á heimasíðu umboðsmanns barna að mikilvægt sé að hlusta á skoðanir barna, taka mark á þeim og að niðurstöðurnar séu nýttar við stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda. Fundirnir á Snæfellsnesi voru fyrstu samráðsfundir með börnum sem Umhverfisstofnun stendur fyrir sem er liður í að bæta samráð og samstarf við almenning um náttúruverndarmál. Samráðsfundir hafa verið haldnir með ýmsum hagsmunaaðilum í tengslum við stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins og þar á meðal íbúafundur. Nánari upplýsingar um vinnuna við áætlanagerðina má nálgast hér á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Nemendur skólanna voru spurðir að því hvort þeim fyndist mikilvægt að taka þátt í verkefni eins og þessu, að móta stefnu og framtíðarsýn þjóðgarðsins, og voru þau einhuga um að það væri mikilvægt. Margar góðar hugmyndir og sjónarmið komu fram á fundunum sem munu nýtast vel í áætlanagerðina. Færum við þeim miklar þakkir fyrir þátttökuna og skemmtilegar og kraftmiklar umræður.   

Nemendur í Fjölbrautarskóla Snæfellinga.
Nemendur í Grunnskólanum Ólafsvík.
Deila frétt