Í október fór vaskur hópur af nemendum Lýsudeildar grunnskóla Snæfellsbæjar ásamt landvörðum í fjöruna við Ósakot að tína rusl. Tvisvar á ári fara nemendur Lýsudeildar, ásamt fulltrúa frá Umhverfisstofnunar, í fjöruna við Ósakot í þeim tilgangi að tína og flokka rusl. Þar hefur Umhverfisstofnun afmarkað rannsóknarsvæði sem er vaktað reglulega og allt rusl flokkað, talið og skráð í samræmi við aðferðafræði OSPAR.
Ospar samningurinn
OSPAR er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins sem Ísland hefur staðfest. Umhverfisstofnun hóf að vakta rusl á ströndum sumarið 2016, samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR. Vaktað er fyrir fram afmarkað svæði á hverri strönd. Tilgangur vöktunarinnar er að finna uppruna rusls á ströndum, hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir, meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og að fjarlægja ruslið. Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR, um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum.