Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og Umhverfisstofnun bjóða til formlegrara opnunar á nýrri þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi föstudaginn 24. mars frá kl. 15 – 17.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mun flytja opnunarávarp við tilefnið.
Um bygginguna
Gestum þjóðgarðsins hefur farið ört fjölgandi undanfarin ár og sækir nú um hálfmilljón gesta þjóðgarðinn heim árlega. Framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina hófust árið 2019 og er hún um 700 m2 að flatarmáli og hýsir sýningu, skrifstofur og aðra aðstöðu Snæfelsjökulsþjóðgarðs. Kostnaður við gerð miðstöðvarinnar nemur ríflega 600 milljónum króna.
Þjóðgarðsmiðstöðin Hellisandi var hönnuð af Arkís arkitektum, sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006. Húsið, sem er BREEAM vottað, skiptist í þrennt; til suðurs er Jökulhöfði, sem vísar í Snæfellsjökul sem trónir yfir húsinu, til norðurs er Fiskbeinið sem vísar til fengsælla fiskimiða á svæðinu og í gegnum húsið liggur svo Þjóðvegurinn, en hægt er að ganga þvert í gegnum húsið að innan sem utan.
Um þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi og var fyrsti þjóðgarður landsins sem náði að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Hann var stofnaður árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar.
Um opnunina
Opnunarhátíðin fer fram föstudaginn 24. mars kl. 15 – 17 og er opin öllum.
Staðsetning: Sandhraun 5, 360 Hellissandi.