Laugardaginn 22. nóvember var ný sýning, Undur Snæfellsjökuls í þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi opnuð.
Opnunardagurinn tókst afar vel, um tvö hundruð gestir mættu á viðburðinn. Gestir á öllum aldri hlýddu á ræðumenn af fjölbreyttum vettvangi, auk þess sem skólakór Snæfellsbæjar flutti tónlist. Að lokinni dagskrá var sýningin Undur Snæfellsjökuls formlega opnuð og gestum boðið upp á léttar veitingar frá veitingastaðnum Sker.
Dagskrá á opnunardegi:
Ragnhildur Sigurðardóttir, þjóðgarðsvörður
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Náttúruverndarstofnunnar
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar og formaður stjórnar Svæðisgarðsins Snæfellsnes
Nína Aradóttir, jöklajarðfræðingur og fræðslufulltrúi Náttúruverndarstofnunar
Dulúð og jarðfræði
Áherslur í sýningunni eru jarðfræði og dulúð Snæfellsjökuls, þjóðsögur og staðreyndir og sögur um hin fjölbreyttu svæði þjóðgarðsins. Haft var í huga að sýningin væri ekki að endurtaka efni frá gestastofunni á Malarrifi, en þar er áherslan á strandmenningu.
Á sýningunni má skoða veglegt steinasafn Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings úr Stykkishólmi sem Náttúruminjasafn Íslands lánar þjóðgarðinum. En það geymir sýni úr helstu bergtegundum á svæðinu og á Íslandi.
Í miðju rýminu er líkan af Snæfellsjökli og landslaginu í kring þar sem má sjá hraun flæða, jökulinn hopa, norðurljós dansa, báta róa og tröll birtast svo fátt eitt sé nefnt. Líkanið tengist svo staðsetningum í kringum jökulinn þar sem hægt er að nálgast þjóðsögur og fróðleik. Sérstök áhersla var lögð á að sýningin höfðaði einnig til barna og geta þau til dæmis skoðað undraheim undir Snæfellsjökli sjálfum.
Ferli sýningarvinnunar
YOKE er hönnunarstofa í Kaupmannahöfn sem sérhæfir sig í gagnvirkri hönnun fyrir gestastofur og söfn, með sérstaka áherslu á upplifun gesta og virkni skilningarvitanna. Uppsetning og smíði sýningarinnar var í höndum Snikkerí, Atendi sá um uppsetningu mynd- og hljóðkerfis.
Undanfarin ár með hléum hefur verið unnið að sýningunni í þjóðgarðsmiðstöðinni. Starfsfólk Náttúruverndarstofnunar vann að verkefninu í samvinnu við dönsku hönnunarstofuna YOKE sem tók við verkefninu af hönnunarstofunni Kvorning sem hóf vinnuna ásamt fleiri aðilum. Í ferlinu urðu mannabreytingar innan þjóðgarðsins og einnig var leitað til góðra aðila víða varðandi yfirlestur, fróðleik og ráðleggingar. Öllum þeim sem komu að sýningunni á mismunandi stigum eru færðar þakkir fyrir sitt framlag við að gera Undur Snæfellsjökuls að veruleika.
Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og hlökkum til að að taka á móti fólki og bjóða upp á veglega sýningu í þjóðgarðsmiðstöðinni. Sjón er sögu ríkari!



