Landvarðarnámskeið 2025

Náttúruverndarstofnun heldur árlega landvarðanámskeið sem veitir þátttakendum réttindi til að starfa sem landverðir í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum um land allt. Námskeiðinu lauk 2. mars og í ár útskrifuðust 70 nemendur. 

Námið er að mestu leyti kennt í fjarnámi en einnig er ein staðlota þar sem nemendur fá hagnýta þjálfun í náttúrutúlkun. Staðlotan fór fram í Snæfellsjökulsþjóðgarði, þar sem áhersla var lögð á að nemendur þjálfist í að halda fræðslugöngur og undirbúa þær. 

Á meðan á staðlotunni stóð fóru nemendur í fræðslugöngu undir leiðsögn Evu Daggar, yfirlandvarðar í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Þeir heimsóttu einnig þjóðgarðsmiðstöðina á Hellissandi og gestastofuna á Malarrifi, þar sem þeir fengu fræðslu um starfsemi þjóðgarðsins og hlutverk landvarða. 

Landvarðanámskeiðið hefur lengi verið eftirsótt og gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja faglega umsjón með náttúruverndarsvæðum landsins. 

Deila frétt