Á dögunum var unnið að umbótum á innviðum í þjóðgarðinum. Framkvæmdir fóru fram á Djúpalónssandi, Saxhól og Svalþúfu þar sem aðgengi og öryggi gesta á svæðinu var bætt og um leið stuðlað að verndun náttúru svæðisins.
Saxhóll
Á Saxhól var frágangur á útsýnispalli kláraður. Þar var einnig komið fyrir hraungrýti og gerðar nokkar náttúrulegar sessur sem hægt er að tylla sér á. Sett voru steinþrep niður af pallinum sem falla vel að umhverfi pallsins, einnig var grjóthleðsla gerð í kringum sjónskífu sem stendur á toppi gígsins.
Djúpalónssandur
Bílastæði ofan við fjöru á Djúpalónssandi var lagfært, malbikað og stæði merkt fyrir rútur og fólksbíla.Lengi hefur verið beðið eftir þessari framkvæmd og var mikill fögnuður á meðal gesta og ekki sýst landvarða þjóðgarðsins sem hafa staðið vaktina þar á sumrin og stýrt umferð um svæðið.
Framkvæmdirnar á Saxhól og við Djúpalón eru hluti af stærra verkefni. Á Saxhól verður bílastæði malbikað og stæði fyrir rútur og fólksbíla merkt. Einnig verður útbúin áningastaður og gönguleið frá bílastæði að tröppunum upp á Saxhól.
Við Djúpalón er stefnt á að klára gerð bílastæðis við þjóðveginn, það malbikað og merkt og þar verður byggt nýtt salernishús.
Svalþúfa
Aðgengi og öryggi var bætt á Svalþúfu þar sem útsýnispallur var lagfærður, handriði bætt við og hjólastólarampur uppá pallinn breikkaður. Framkvæmdir miðuðu einnig að því að vernda gróður umhverfis pallinn sem farið var að sjá á vegna átroðnings.