Refir í þjóðgarðinum

Frumbyggi

Refurinn (Alopex lagopus) er eina upprunalega landspendýr Íslands og er líklegt að tegundin hafi sest hér að í lok síðustu ísaldar.

Liturinn

Refir eru oftast annað hvort mórauðir eða hvítir að lit. Mórauð dýr halda lit sínum allt árið. Hvítir refir eru næstum alhvítir að vetri en að sumarlagi eru þeir tvílitir, grábrúnir á baki og ljósir á kvið.  Mórauði liturinn er hentugur felubúningur í fjörum landsins en sá hvíti dylst vel þar sem snjóalög eru þung.

Félagskerfi og tímgun

Meginreglan í samfélagi refa er einkvæni og einvera.   Lífshættir íslenskra refa eru breytilegir eftir árstíðum. Veturinn einkennist af undirbúningi undir fengitíma og meðgöngu.  Bæði kyn verða kynþroska á fyrsta vetri. Fengitími er í mars og meðgangan tekur tæpa 60 daga.   Yrðlingarnir algerlega háðir móðurmjólkinni fyrstu 3–4 vikurnar.   Greni er íverustaður læðunnar og yrðlinganna en steggurinn fer sjaldan eða aldrei þar inn.  Óðal er yfirráðasvæði pars, heimasvæði þeirra sem þau fara um daglega til að afla fæðu og annarra nauðsynja. Mörg greni geta verið innan sama óðals og getur parið flutt sig um set ef þau telja ástæðu til.

Fæðuval

Helsta fæða refa á Íslandi eru fuglar, egg þeirra og ungar ásamt ýmsum hryggleysingjum, t.d. marflóm, þangflugu- og býflugulirfum. Á utanverðu Snæfellsnesi eru fuglabjörg þar sem bjargfugl verpir, aðallega langvía, stuttnefja, fýll og rita. Þar sem fuglarnir dvelja aðeins í björgunum í nokkrar vikur, þurfa refirnir að veiða eins mikið og þeir geta til að eiga forða sem dugir þeim fram á vetur. Afföll refa yfir fyrsta veturinn eru há og aðeins þeir allra sterkustu lifa af .

Hvernig við umgöngumst refi

Refir, eins og önnur villt dýr, eru friðaðir í náttúru Íslands og engin undanþága er veitt til að veiða refi í þjóðgarðinum. Refagreni eru jafnframt friðuð gegn ágangi og óþarfa truflun á tímabilinu frá 1. maí til 31. júlí. Sýnt hefur verið fram á að grendýr sem búa við mikla truflun, fara síður á veiðar og koma sjaldnar með fæðu heim á greni. Afleiðingarnar eru þær að færri yrðlingar lifa af sumarið og þeir sem eftir eru að hausti eru verr í stakk búnir til að lifa af veturinn. Mikilvægt er að virða dýrin og lífshætti þeirra þegar ferðast er um svæðið.

■ Ef þið sjáið ref sem ykkur langar að taka mynd af, er besta leiðin að halda kyrru fyrir og fylgjast með úr fjarlægð. Reynið ekki að elta dýrin.

■ Ef þið eruð hljóð og forðist óþarfa hreyfingar er ekki ólíklegt að dýrið komi sjálft til ykkar, svo fremi sem það finni sig öruggt.

■ Ekki dvelja nálægt greni ef þið eruð á ferð í júní og júlí. Ef fylgjast á með dýrum við greni ætti að miða við að vera ekki nær því en 40 metra, helst fjær og staldra ekki lengi við.

■Ef refir sýna merki um hræðslu, færið ykkur þá fjær.

■ Forðist að vera á milli foreldra og afkvæma og gefðu dýrunum svigrúm til að fara ferða sinna að vild.

■ Ekki gefa refum mat, enda er það þeim ekki til hagsbóta til lengri tíma litið.

■ Nauðsynlegt er að gefa grendýrum næði í nægilega langan tíma til hvíldar og eðlilegrar samveru. Því væri æskilegt að vera ekki á ferðinni í nágrenni grenja milli kl. 19:00 og 09:00.