Fjölmennt í sumarsólstöðugöngu á Snæfellsjökul

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stóð fyrir sumarsólstöðugöngu á Snæfellsjökul að kvöldi föstudagsins 20. júní. Mikill fjöldi var í göngunni og voru alls 103 sem lögðu af stað frá Jökulhálsi og náðu allir á toppinn á innan við 3 klst. þar sem hópurinn naut sólsetursins á sumarsólstöðum í blankalogni. Heiðskírt var og sól á leiðinni upp og færið gott þó Jökullinn sé talsvert farinn að springa og varasamur fyrir aðra en fólk sem er vant jöklaferðum.

Leiðsögumaður í ferðinni var Snævarr Guðmundsson sem er reyndur jöklafari. Nokkuð mikil vélsleðaumferð var á Jöklinum meðan gangan stóð og beinir þjóðgarðurinn þeim tilmælum til vélsleðamanna að sýna göngufólki á Jöklinum tillitssemi. Sumarsólstöðugangan er árviss viðburður og mun verða athugað hvort umferð vélsleða verði framvegis takmörkuð á þeim tíma sem gangan er.

Deila frétt