Bjarni Sigurbjörnsson – opnun listasýningar
Listmálarinn Bjarni Sigurbjörnsson opnar Tóra listasýningu sína í Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi fimmtudaginn 13.júní kl. 15:00-17:00. Bjarni verður á svæðinu og ræðir listina við gesti og gangandi.
Eftir að hafa búið hér um nokkurt skeið og horft til jökuls á hverjum degi varð ég var áhugaverðra skýjamyndunar yfir jöklinum. Það er þegar skýjakápa liggur yfir svæðinu og op myndast í henni yfir jöklinum. Þegar skýjakápa þekur norðurhlið nesins virðist jökullinn hneppa frá kápunni þannig að heiðblár himinn blasir við rétt eins og elskhugi afklæðir áskonu sína.
Eftir eftirgrennslan um þetta fyrirbæri heyrði ég af því að þetta hefði verið merki um veðurbreytingar sem sjómenn og bændur lásu í og ákváðu athafnir sínar út frá. Þetta veðurfyrirbæri gekk undir nafninu Tóra og töldu sjómenn og bændur að það gæfi til kynna að þó stillt væri í veðri gæti stormur verið í aðsigi.
Bjarni starfar á Hellissandi og rekur þar vinnustofu og listahúsið Himinbjargir ásamt eiginkonu sinni Ragnheiði Guðmundsdóttur, myndlistakonu.
Bjarni útskrifaðist árið 1992 með BFA frá San Fransisco Art Institute og síðan MFA árið 1996 frá sama skóla. Bjarni hefur sýnt bæði hér heima og erlendis síðustu þrjátíu ár og á verk í öllum helstu söfnum landsins.
Verkið Tóra samanstendur af fjórum olíumálverkum sem Bjarni málaði árið 2022.
Sýningin stendur til 30.júní.