Um áramót er gott að staldra við og líta yfir farinn veg. Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður fyrir tæpum 24 árum með það að markmiði að vernda náttúru og sögu svæðisins til framtíðar. Það eru mikil verðmæti í Snæfellsjökulsþjóðgarði sem eru fólgin í einstakri, lítt snortinni náttúru og langri sögu um veru fólks á svæðinu sem finna má við nánast hvert fótmál þegar gengið er um garðinn. Meginmarkmið okkar í þjóðgarðinum er að virkja öll skilningarvit gesta, virkja tengsl við náttúruna, finna orkuna og hlaða batteríin eftir daglegt amstur. Einnig að komast í kynni við lífsbaráttu fyrri kynslóða sem treystu á gjafir náttúrunnar. Snæfellsjökulsþjóðgarður er einstök skólastofa um náttúru og sögu, en einnig útivistarparadís sem eflir lýðheilsu.
Vinsældir Snæfellsjökulsþjóðgarðs hafa aukist með hverju árinu. Það er áskorun að taka á móti miklum fjölda gesta og enn og aftur var met slegið í gestafjölda. Árið 2024 heimsóttu rúmlega 460 þúsund gestir garðinn, það er um 10% aukning frá árinu 2023. Svo hægt sé að taka á móti miklum fjölda gesta þurfa að vera til staðar góðir innviðir sem bæta aðgengi gesta, upplifun og öryggi, en síðast en ekki síst innviðir sem vernda náttúru og menningarminjar svæðisins. Það hefur gríðarlega mikið áunnist í uppbyggingu Snæfellsjökulsþjóðgarðs frá stofnun hans árið 2001. Það tekur tíma að byggja innviði, það er kúnst að vernda náttúruna og á sama tíma að taka á móti miklum fjölda gesta. Á liðnu ári hefur verið unnið að því að bæta aðstöðu á Djúpalónssandi sem er vinsælasti viðkomustaðurinn í þjóðgarðinum. Bílastæði var lagfært og unnið að gerð nýs bílastæðis við þjóðveginn þar sem einnig verður komið fyrir nýju salernishúsi. Þá er deiliskipulagsvinna í gangi á öðrum áfangastöðum í þjóðarðinum, lagfæring og uppbygging göngustíga, útsýnisstaða og áningarstaða. Náttúru- og minjavernd er alltaf í forgrunni í starfsemi þjóðgarðsins og því mikilvægt að allir innviðir séu vel ígrundaðir og falli vel að náttúrunni.
Þjónusta í þjóðgarðinum hefur verið aukin til muna á síðustu árum. Starfsfólki hefur fjölgað um meira en helming og með tilkomu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi eru nú starfræktar tvær gestastofur allt árið um kring. Met var slegið í fjölda gesta sem komu inn á gestastofur, eða rúmlega 145 þúsund gestir á liðnu ári. Það hefur sýnt sig að mikilvægt er að halda báðum gestastofum opnum allt árið, meðal annars vegna öryggismála þar sem gestir geta leitað skjóls í vondum veðrum, fá upplýsingar um færð og hvað ber að varast þegar ferðast er um svæðið. Þá var fræðsludagskrá þjóðgarðsins fjölbreytt á liðnu ári og þátttaka í fræðslugöngum og viðburðum mjög góð þar sem rúmlega 200 manns tóku þátt. Boðið var upp á daglegar fræðslugöngur og vikulega barnastund með landvörðum yfir sumartímann ásamt öðrum fjölbreyttum viðburðum á öllum árstímum.
Með tilkomu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi hafa tengsl þjóðgarðsins við nærsamfélagið styrkst. Samstarf við skóla á öllum námsstigum á Snæfellsnesi hefur aukist. Þá þjónar þjóðgarðsmiðstöðin einnig hlutverki menningarmiðstöðvar þar sem möguleiki er að setja upp tímabundnar listasýningar, halda tónleika og aðra viðburði. Það var mikið gæfuspor fyrir þjóðgarðinn og samfélagið á Snæfellsnesi að loksins varð að byggingu hússins á Hellissandi og mikilvægt að þróa áfram notagildi þess fyrir nærsamfélagið og aðra gesti.
Að lokum þá hef ég tekið þá erfiðu ákvörðun að láta af störfum sem þjóðgarðsvörður, en mun áfram starfa í náttúruvernd á öðrum vettvangi hjá Náttúruverndarstofnun. Ég hóf hér störf fyrst árið 2006 sem sumarlandvörður í fimm sumur og tók svo við starfi þjóðgarðsvarðar sumarið 2022. Snæfellsjökulsþjóðgarður á djúpar rætur í mínu hjarta. Þjóðgarðurinn er einstakur á heimsmælikvarða, hann hefur sannað gildi sitt og segja má að þar á stærstan þátt það frábæra starfsfólk sem þar starfar. Takk fyrir samstarfið og vináttuna í gegnum árin.