Almyrkvi á sólu 2026

Fimmtudaginn 20. mars var Sævar Helgi Bragason með erindi um almyrkva á sólu  í Þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi.  

Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi í fyrsta sinn síðan 1954. Almyrkvaslóðin liggur yfir Vestfirði, Snæfellsnes , höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskaga. Þetta mun einnig vera fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní 1433.  

Atburðurinn mun laða að fjölda ferðmanna víða að úr heiminum til Íslands.  Snæfellsnes verður áfangastaður í brennidepli  þar sem atburðarrásin mun sjást einkar vel frá svæðinu. Í Snæfellsbæ, mun almyrkvinn sjást lengst í 2 mínútur og 10 sekúndur.  

Sævar Helgi er einn sá fróðasti hér á landi um almyrkva á sólu og hefur farið víða um land með fræðslu um sólmyrkvann.  Það má með sanni segja að hann hafi kveikt neistann hjá  viðstöddum á fimmtudaginn og komið af stað góðu samtali um væntingar og skipulag fyrir svæðið.  

Væntingar og skipulag á Snæfellsnesi
Ragnhildur Sigurðardóttir, nýr þjóðgarðsvörður hélt stutt fræðsluerindi um Snæfellsjökulsþjóðgarð og Eva Dögg yfirlandvörður fór yfir það sem við er að búast hjá okkur í þjóðgarðinum við sólmyrkvann og hvernig við getum, í samvinnu við aðra þá sem málið varðar, tekið á móti þeim fjölda gesta sem sækir okkur heim þennan dag. 

Matarlist bauð fundarmönnum upp á kaffi og hægt var að kaupa ljúffengar veitingar 

Starfsfólk Snæfellsjökulsþjóðgarðs þakkar gestum kærlega fyrir komuna á viðburðinn og Sævari Helga fyrir frábært og fróðlegt erindi um almyrkva á sólu. 

Fyrir áhugasama þá heldur Sævar Helgi úti frábærri fræðslusíðu um almyrkva á sólu. Sjá hér.

Deila frétt