Landverðir bregðast við utanvegarakstri

Við upphaf haustsins hefur því miður borið mikið á utanvegaakstri innan Snæfellsjökulsþjóðgarðs. Landverðir hafa undanfarið varið dýrmætum tíma í að lagfæra skemmdir og vinna að því að koma í veg fyrir frekari átroðning á viðkvæmri náttúru svæðisins.

Eitt af úrræðum landvarða gegn utanvegaakstri er að lagfæra skemmdir sem þegar hafa orðið. Þá er leitast við að fela förin eða móta umhverfið þannig að þau falli betur inn í landslagið og dragi úr líkum á frekari akstri um svæðið. Reynslan sýnir að för sem eru látin ósnert geta hvatt aðra ökumenn til að fylgja þeim eða aka í kringum þau, þar sem förin gefa til kynna að slík aksturleið sé viðurkennd. Þetta getur haft áhrif á upplifun ferðamanna og breytt ásýnd náttúrunnar.

Viðgerðir eftir utanvegaakstur eru yfirleitt tímafrekar og krefjast mikillar vinnu, hvort sem um er að ræða skemmdir í mosa eða á grýttu yfirborði. Í mosagróðri eru förin oft sérstaklega áberandi; mosinn deyr við traðk og getur tekið mörg ár að jafna svæðið, og í sumum tilfellum hverfa förin aldrei alveg.

Það er mikilvægt að hafa í huga að utanvegaakstur er ólöglegur og veldur varanlegum skaða á viðkvæmri náttúru. Jafnvel þótt það sjáist för fyrir utan veg, ber að halda sig á merktum vegum og slóðum. Með því sýnum við náttúrunni virðingu og tryggjum að hún njóti sín – fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.

Deila frétt