Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull vex og dafnar vel og störfum fjölgar. Árið 2021 voru mörk þjóðgarðsins útvíkkuð og í ár mun nýja þjóðgarðsmiðstöðin opna á Hellissandi. Í takt við aukið umfang verkefna í þjóðgarðinum fjölgar starfsfólki jafnt og þétt og eru nú sjö starfsmenn í fullu starfi í garðinum og í sumar bætast við sumarlandverðir og þá eru ársverk í þjóðgarðinum orðin um níu, fyrir utan verktaka sem koma að uppbyggingu innviða, ræstingu og vetrarþjónustu í þjóðgarðinum.
Opnun þjóðgarðsmiðstöðvar 24. mars nk.
Framundan eru fjölbreytt og krefjandi verkefni sem starfsfólk þjóðgarðsins leggur allan sinn metnað í að takast á við. Mesta orkan þessa dagana fer í undirbúning opnunar nýju þjóðgarðsmiðstöðvarinnar á Hellissandi. Við hlökkum mikið til að opna dyrnar á því stórkostlega húsnæði þann 24. mars næstkomandi og bjóðum ykkur öll velkomin. Orkuna sækjum við starfsfólkið að sjálfsögðu í jökulinn og Bárður Snæfellsás heldur verndarskildi yfir okkur, segir Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður.
Starfsfólk þjóðgarðsins: Guðmundur Jensson landvörður, Jón Grétar Borgþórsson, landvörður, Mandy Nachbar þjónustufulltrúi, Rut Ragnarsdóttir þjónustustjóri, Páll Marel Jónsson landvörður, Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður og Eva Dögg Einarsdóttir yfirlandvörður