Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, undirritaði og staðfesti endurnýjaða stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð við opnun nýrrar þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi nýverið.
Áætlunin var unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrustofu Vesturlands, Snæfellsbæjar og Ferðamálasamtaka Snæfellsness. Í vinnuferlinu var haldinn opinn fjarfundur fyrir íbúa og aðra áhugasama þar sem fjallað var um málefni þjóðgarðsins. Haldnir voru stefnumótunarfundir með skólanemendum á Snæfellsnesi til að hlusta eftir hugmyndum ungu kynslóðarinnar um framtíðina í þjóðgarðinum auk þess sem sérstakir fundir voru haldnir með hópum hagsmunaaðila.
Meginstefið í áætluninni er verndun náttúru- og menningarminja um leið og fólk er boðið velkomið í þjóðgarðinn, sér til fróðleiks og heilsubótar. Áhersla er lögð á vöktun og samstarf við aðrar stofnanir. Gert er ráð fyrir öflugri heimasíðu þjóðgarðsins til að veita almenningi góða þjónustu þar sem hægt verður að fá áreiðanlegar upplýsingar um þjóðgarðinn, nálgast fræðsluefni og hugmyndir að verkefnum og sækja um leyfi svo eitthvað sé nefnt.
Hér má finna stjórnunar- og verndaráætlunina ásamt gögnum sem henni fylgja.
Fréttir